Lungnakrabbamein

Lungnakrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið hjá körlum á Íslandi. Á hverju ári greinast rúmlega 80 karlar með sjúkdóminn. Um 90% lungnakrabbameina orsakast af tóbaksreykingum og því er þetta sjúkdómur sem auðveldlega er hægt að koma í veg fyrir að mestu leyti. Mikið er í húfi því lungnakrabbamein veldur flestum dauðsföllum vegna krabbameins, bæði hjá körlum og konum.

Öndunarvegurinn er þakinn örfínum bifhárum sem vernda lungum fyrir eiturefnum, bakteríum og veirum. Tóbaksreykur lamar bifhárin og þá geta krabbameinsvaldandi efni í tóbaksreyk (þau eru um 70 talsins!) safnast fyrir í lungum og valdið skemmdum sem geta leitt til lungnakrabbameins. 

Langbest er að byrja aldrei að reykja. Einnig er mikilvægt að við verndum okkur og okkar fólk fyrir óbeinum reykingum, því það að búa með reykingarmanni eykur hættu á lungnakrabbameini um 20-30% miðað við að búa á reyklausu heimili. 

Fyrir fólk sem reykir er það að hætta að reykja mögulega stærsta einstaka skrefið til betri heilsu. Áhættan á lungnakrabbameini minnkar um 30-50% innan tíu ára frá reykbindindi.

Ert þú með einkenni frá lungum eða önnur óþægindi?

Á byrjunarstigum lungnakrabbameins eru sjaldan einkenni, og það á reyndar við um flestar tegundir krabbameina. Talið er að lungnakrabbamein hafi byrjað að myndast um 15-20 árum áður en það fer að gefa nokkur einkenni.

Kannast þú við:

  • Þrálátan hósta?
  • Að hósta upp blóði?
  • Hæsi eða brjóstverk?
  • Lystarleysi, slappleika, óútskýrt þyngdartap eða langvarandi hita?

Ef svo er skyldi láta kanna hvort möguleiki sé á lungnakrabbameini, þó einkennin geti orsakast af öðru. Fyrsta skrefið er að leita til heimilislæknis.

Ertu kannski að spá í önnur einkenni krabbameina?

Grunar þig að þú sért með lungnakrabbamein?

Ef grunur vaknar um krabbamein í lungum er fyrsta skrefið að leita til heimilislæknis og svo er venjan að taka röntgenmynd og/eða tölvusneiðmynd af lungum.

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Langar þig að hætta að reykja?

Reykbindindi er langstærsta skrefið sem þú getur tekið til að minnka líkur á lungnakrabbameini.

Fjölskyldusaga getur aukið einnig áhættu, sérstaklega meðal reykingarmanna, og asbest og önnur krabbameinsvaldandi efni geta stuðlað að lungnakrabbameini. Asbest hefur nú verið bannað á Íslandi og reglugerðir settar til að vernda þá sem vinna við asbest, til dæmis við niðurrif á gömlum húsum.

Lestu meira: 



Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?