Krabbamein í ristli og endaþarmi

Krabbamein í ristli og endaþarmi, oft kallað ristilkrabbamein til einföldunar, er næstalgengast krabbamein hjá körlum á Íslandi. Á hverju ári greinast tæplega 100 karlar á Íslandi með krabbamein í ristli og endaþarmi. Meðalaldur við greiningu er um 68 ár. Almennt eru horfur sjúklinga með krabbamein í ristli og endaþarmi góðar. Ef krabbameinið uppgötvast snemma er langoftast hægt að fjarlægja það með skurðaðgerð. Nú eru á lífi rúmlega 770 karlar með ristilkrabbamein.

Krabbamein í ristli og endaþarmi er eitt fárra krabbameina sem hægt er að finna, og jafnvel koma í veg fyrir, á byrjunarstigum. 

Árið 2016 var undirritað samkomulag hér á landi um undirbúning skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hjá körlum og konum á aldrinum 60-69 ára og eitt af markmiðum í krabbameinsáætlun er að skimun fyrir meininu hefjist sem fyrst. 

Fyrirkomulagið sem stungið er upp á er að fyrst sé rannsakað hvort dulið blóð sé í hægðum og ef eitthvað finnst þar þá fari fólk í ristilspeglun. Þar til skipuleg skimun hefst er mælt með að þeir sem eru á aldrinum 50-75 ára ræði við heimilis- eða meltingarfæralækni um möguleikann á leit að ristilkrabbameini. Hjá þeim sem eru með sterka ættarsögu gæti verið ástæða til að taka þetta samtal fyrr.

Ert þú með einkenni frá meltingarvegi eða önnur óþægindi?

  • Er blóð í hægðum án augljósra skýringa?
  • Ertu með svartar hægðir?
  • Hafa orðið viðvarandi breytingar á hægðavenjum, t.d. niðurgangur eða hægðatregða sem varir vikum saman?
  • Ertu með meltingareinkenni svo sem kviðverki og uppþembu?
  • Áttu við blóðleysi af óþekktri orsök að stríða?
  • Ertu að léttast óeðlilega hratt eða mikið?
  • Ertu óeðlilega þreklaus?

Ristill og endaþarmur eru síðustu hlutar meltingarvegarins. Krabbamein í ristli og endaþarmi veldur oft engum einkennum í byrjun en stundum veldur það smávægilegum blæðingum og breytingum á meltingu. 

Einkenni geta þó stafað af öðru en krabbameini en mikilvægt er að láta lækni skera úr um það. Þú getur leitað til heimilislæknis eða meltingarfæralæknis. 

Ertu kannski að spá í önnur einkenni krabbameina?

Grunar þig að þú sért með ristilkrabbamein?

Ef grunur vaknar um krabbamein í ristli eða endaþarmi er mikilvægt að leita til heimilislæknis eða meltingarfæralæknis. Þá er ristilspeglun mikilvægasta rannsóknin. Þar er sveigjanlegt speglunartæki sett inn um endaþarminn, þrætt upp eftir ristlinum og slímhúðin skoðuð. Með speglunartækinu er hægt að taka vefjasýni og fjarlægja ristilsepa, sem geta verið forstig ristilkrabbameins.

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Hvað má gera til að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi?

Áhættan á ristilkrabbameini er mjög tengd lífsstíl. Verndandi þættir, sem vitað er að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi eru:

  • hreyfing
  • neysla á heilkornavörum og trefjum
  • neysla á mjólkurvörum og kalki

Þættir sem vitað er að auki líkur á meininu eru:

  • neysla á rauðu kjöti og unnum kjötvörum
  • áfengisneysla
  • að vera yfir kjörþyngd
  • að vera mjög hávaxin/n
  • reykingar

Auk þessara lífsstílsþátta, sem hægt er að hafa áhrif á með daglegum ákvörðunum, eru aðrir áhættuþættir sem erfiðara er að eiga við, þ.e. ættarsaga (ef foreldrar, systkini eða barn manns greinist með ristilsepa eða ristilkrabbamein), langvarandi bólgusjúkdómar í ristli og endaþarmi (svo sem sáraristilbólga) og nokkrir sjaldgæfir erfðasjúkdómar, sem allt eykur líkur á sjúkdóminum.

Lestu meira:



Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?