Pabbamein

Líkur á að karlmenn greinist með krabbamein aukast jafnt og þétt eftir fimmtugt. Flestir sem greinast eru feður og því köllum við þessi mein Pabbamein. Þessir sjúkdómar hrifsa frá okkur of marga feður, of snemma.

Ef þú ert pabbi eru örugglega margir sem vilja að þú sért frískastur sem lengst – og þú ættir því að passa vel upp á þig. Við í Karlaklefanum hvetjum alla til að vera vakandi fyrir einkennum sem gætu bent til krabbameins og að hika ekki við að leita til læknis.

Við viljum hafa ykkur pabbana sem lengst á meðal okkar, við sem besta heilsu.

Það er staðreynd að við karlar drögum almennt lengur en konur að leita til læknis. Það er áríðandi að bregðast hratt við mögulegum einkennum krabbameins, því ef í ljós kemur að þau tengjast krabbameini skiptir tíminn miklu máli.

Tvennt er mikilvægast:

 • þekkja helstu einkenni sem gætu bent til krabbameins
 • bregðast við einkennum og leita til læknis

Tíminn er dýrmætur – ekki bíða til æviloka

Því fyrr sem krabbamein uppgötvast, því meiri líkur eru á bata. 

Ýmis einkenni gætu bent til krabbameins, en lykilspurningarnar eru:

 1. Er eitthvað öðruvísi en vanalega við líkamsstarfsemina?
 2. Er óljóst hvað gæti valdið þessum breytingum?
 3. Hafa breytingarnar varað lengur en í þrjár vikur?

Ef þetta þrennt fer saman; eitthvað er öðruvísi, óljóst hvers vegna og breytingin er orðin langvarandi – þá er mikilvægt að leita til læknis.

Ertu með allt á hreinu? Taktu pabbameinsprófið

Er eitthvað öðruvísi en venjulega?

Hér eru möguleg einkenni sem þú ættir ekki að láta fara fram hjá þér. Hafðu samt í huga að þessi einkenni gætu átt sér aðrar skýringar en krabbamein.

 • Óvenjuleg blæðing, til dæmis frá endaþarmi, blóð í hægðum, þvagi eða hráka
 • Þykkildi eða hnútar, til dæmis í pung, nára, handarkrika eða á tungu
 • Óútskýrt þyngdartap
 • Þrálátur hósti eða hæsi
 • Langvarandi kyngingarerfiðleikar
 • Sár sem ekki gróa, til dæmis í munni eða á kynfærum
 • Breytingar á hægðum eða þvaglátum, til dæmis langvarandi niðurgangur eða hægðatregða, blóð í hægðum eða erfiðleikar við að pissa
 • Nýir fæðingarblettir eða breytingar á blettum, til dæmis í stærð, á lögun eða lit
 • Langvarandi óþægindi frá meltingarvegi, til dæmis magaverkir eða uppþemba
 • Þreyta sem ekki minnkar við hvíld
 • Viðvarandi verkir án þess að orsök sé ljós

Lestu meira:

Pabbar þurfa að vera vakandi

Það er engin tilviljun að við hvetjum karla sérstaklega til að vera vakandi og bregðast við mögulegum einkennum.

Rannsókn Krabbameinsfélagsins á Íslendingum sem greinst höfðu með krabbamein sýndi að 60% kvenna leituðu til læknis innan mánaðar eftir að þær fóru að finna fyrir einkennum – en aðeins 35% karla.

Einn af hverjum sjö körlum (14%) beið með að leita til læknis lengur en í ár frá því þeir fóru að finna fyrir einkennum.

Ekki vera einn af þeim sem reynir of lengi að harka hlutina af sér!

https://youtu.be/x2oAC0jFX-UFagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga. 


Viltu koma í klúbbinn?

Karlaklúbbur karlaklefans

Við karlar erum stundum heldur tregir að leita upplýsinga eða aðstoðar varðandi andlega eða líkamlega heilsu. Í Karlaklúbbnum ætlum við í sameiningu að breyta því.

 

Lesa meira