Reynslusaga

Þakklátur fyrir framlenginguna

Björn Ingólfsson, 74 ára, krabbamein í gallvegi

Björn Ingólfsson, fyrrverandi skólastjóri á Grenivík, er giftur sjö barna faðir. Hann greindist með krabbamein í gallvegi árið 2009 og í framhaldinu gekkst hann undir stóra og flókna aðgerð á Landspítalanum, svokallaða Whipple aðgerð. Hlutar af brisi, maga og skeifugörn voru fjarlægðir til að varna því að krabbameinið dreifðist frekar.

Björn hafði í einhvern tíma fundið fyrir óþægindum í líkamanum sem hann kannaðist ekki við; verki, kláða og kuldaköst. Þetta endurtók sig með reglulegu millibili.

„Mér hefur aldrei orðið misdægurt alla mína ævi, nema í þetta eina skipti. Og svo þegar ég var orðinn allur gulur, meira að segja í augunum eins og tígrisdýr, þá þótti nú rétt að senda mig til læknis,“ segir Björn.

Björn Ingólfsson

Greiningin kom ekki á óvart, en Björn vissi ekki hvaða áhrif þessi flókna aðgerð myndi hafa á líf hans. Eftir aðgerðina og mánaðardvöl á Landspítalanum kom þó í ljós að ekki þyrfti að senda hann í frekari meðferð, hvorki geisla- né lyfjameðferð. Meinið virtist vera farið.

„Það var alveg hrikalegt að sjá mig fyrst eftir aðgerðina og ég var lengi að ná mér á strik með meltingu og annað. Ég missti 15 kíló, sem ég mátti nú ekki við, og þetta gekk á vöðvana. Ég var orðinn asskoti rýr þegar ég kom þarna út. En verst þótti mér að geta ekki hlaupið upp tröppur eins og ég var vanur.“

Á Grenivík búa um 260 manns og Björn segist hafa fundið mikinn stuðning frá íbúum. Það sé eðlilegt í svo litlu samfélagi að fólki sé umhugað um nágranna sína: „Menn hafa sagt mér að þetta hafi verið töluvert rætt á þessum tíma: „Já, þú varst nú ansi hætt kominn. Nærri dauður og bara heppinn að lifa þetta af!“ En það var ekkert svoleiðis.“

Það kemur ekkert fyrir mig!

„Maður hugsar svo oft að það komi ekkert fyrir mann sjálfan. Aðrir lendi í svona hlutum og auðvitað voru nákomnir ættingjar smeykir um að þetta myndi fara illa. Við ræddum þetta þó ekki mikið og ég hafði aldrei áhyggjur, ekki einu sinni eftir að ég var búinn að fá vissu um að þetta væri krabbamein. Og ég held að það sé mikilvægt að vera bjartsýnn.“

Nú eru tíu ár liðin frá aðgerðinni og Björn er við hestaheilsu. Hann þakkar það ekki síst því að hafa verið í góðu líkamlegu ástandi þegar hann greindist. Hans helsta endurhæfing hefur falist í því að ganga reglulega upp á Þengilhöfða - og hann var fljótlega farinn að hlaupa upp stiga eins og áður. „En það sem mér finnst merkilegast við þetta allt saman er að ég get borðað hvað sem er. Það er enginn matur sem ég þoli ekki.“

„Ég er mjög heppinn. Einn af fáum sem komast í gegnum þessa tegund krabbameins og það er ekkert sjálfgefið að maður fái að lifa. Fyrir það er ég þakklátur og mér finnst ég hafa fengið framlengingu.“

  • Viðtal frá árinu 2018.

Upplýsingar um einkenni, orsakir, greiningu og meðferð krabbameins í gallblöðru og gallvegum er að finna á heimasíðu Krabbameinsfélagsins. Þar eru einnig upplýsingar um einkenni eða merki sem líkaminn sendir sem mikilvægt er að vera vakandi fyrir og gætu verið til marks um krabbamein.

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á aðstoð félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga fólki að kostnaðarlausu.

Þar eru einnig í boði ýmis námskeið og fyrirlestrar



Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?