Kynlífið

Algengt er að krabbameinsmeðferðir valdi risvanda hjá karlmönnum. Þetta geta verið tímabundnar truflanir á risi eða risgeta getur tapast varanlega. Risvandi hefur oft veruleg áhrif á sjálfsmynd og sjálfa karlmennskuna.

Kynlíf skipar mikilvægan sess í lífi flestra. Ef kynlífið raskast getur það haft neikvæðar afleiðingar fyrir lífsgæði og valdið miklu hugarangri og vanlíðan

Þegar risvandi er kominn til að vera finnst mörgum körlum þeir vera ónýtir og jafnvel að best væri fyrir maka þeirra að skila þeim!

Þú ert meira en typpið

Það góða í þessu er að vel má stunda kynlíf án þess að hafa holdris. Jafnvel geta menn fengið fullnægingu án þess að fá ris. 

Það þarfnast smá sköpunar og að opna á nýjar leiðir að stunda kynlíf án samfara. Samfarir eru til þess hannaðar að búa til börn en kynlíf er til þess að hafa gaman og gott af.

Ræddu við maka þinn um áhrif risvanda á sambandið ykkar. Krabbameinslæknir getur ráðlagt þér með meðferðir sem eru í boði við risvanda og hægt er að fá tíma hjá hjúkrunarfræðingum á göngudeild þvagfæralækninga á Landspítalanum til fá frekari ráðgjöf um meðferðir s.s. lyf, sprautur eða pumpur. 

Ef þú eða þið viljið aðstoð við að ræða kynlífið og fá ráðleggingar um endurhæfingu í kynlífi eftir risvanda er velkomið að hafa samband við ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og fá viðtal við kynlífsráðgjafa.

Mikilvægt er að vita að margt af því sem veldur mönnum miklum áhyggjum og vanlíðan er hægt að vinna með og það á ekki að vera feimnismál að leita ráðgjafar hjá fagaðilum.

Hvert er hægt að leita?

Það fer eftir eðli og orsök vandans hvert viðeigandi er að leita hverju sinni. Kvensjúkdómalæknar, þvagfæralæknar, sjúkraþjálfarar, sálfræðingar, geðlæknar og fleiri geta unnið með mál sem tengjast þeirra sérsviði. Mikilvægt er að orða vandann og leita upplýsinga hjá fagaðilum sem geta vísað veginn áfram.

Krabbameinsfélagið býður uppá kynlífsráðgjöf. Áslaug Kristjánsdóttir hjúkrunar- og kynfræðingur sinnir kynlífsráðgjöfinni og heldur námskeið um kynheilbrigði. Hafa má samband í síma 800 4040 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið radgjof@krabb.is.

Einnig er í boði kynlífsráðgjöf á Landspítalanum. Ráðgjöfin er opin einstaklingum sem eru í meðferð þar. Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, hjúkrunar-og kynfræðingur og sérfræðingur í klínískri kynfræði (NACS) er starfsmaður. Starfsfólk spítalans getur sent beiðni til Jónu. Einnig er hægt að hafa samband við ritara í síma 543 6800 og biðja um Jónu, eða senda tölvupóst á netfangið jonaijon@landspitali.is.

Lestu meira:Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?