Hvað er krabbamein?

Krabbamein geta átt upptök sín í næstum öllum vefjum og líffærum líkamans.

Krabbamein myndast við það að erfðaefni frumu breytist og veldur því að hún starfar ekki lengur eins og heilbrigðar frumur af sama tagi. Fruman fer meðal annars að fjölga sér stjórnlaust og þannig myndast illkynja æxli.

Krabbamein geta dreifst um líkamann frá líffærinu sem það á upptök sín í, meðal annars með blóðæðum og sogæðum.

Hvað veldur breytingum í erfðaefninu?

Ýmsir þættir geta haft neikvæð áhrif á starfsemi erfðaefnis frumu. Þegar skemmdir í erfðaefninu eru þannig að fruman ræður ekki við að lagfæra þær og hún breytist í krabbameinsfrumu er nær alltaf um að ræða samanlögð áhrif nokkurra þátta. 

Þessir áhrifaþættir eru sumir þess eðlis að þeim verður ekki breytt, t.d. aldur og erfðir. Þannig er almennt líklegra eftir því sem við eldumst að krabbamein myndist og svo hafa sumir erft ákveðnar veilur í erfðaefni sem veldur því að þeir eru líklegri til að mynda ákveðnar gerðir krabbameina. 

Aðra þætti er hinsvegar hægt að hafa áhrif á því marga þeirra má rekja til almennra lífshátta og er talið að með ákveðnum lífstíl væri hægt að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum. Þessir þættir eru meðal annars mataræði, líkamleg hreyfing, áfengisdrykkja, tóbaksneysla og fleira.

Af hverju er ekki skimað fyrir fleiri tegundum krabbameins en gert er?

Af þeim fjölmörgu tegundum krabbameins sem fyrirfinnast eru ekki alltaf til heppilegar aðferðir til þess að finna sjúkdóminn á frumstigi eða að krabbameinin eru það sjaldgæf að það myndi vera allt of dýrt fyrir heilbrigðiskerfið að leita að krabbameininu hjá þúsundum fólks fyrir þá fáu sem myndu greinast og stundum eru möguleikar á meðferð ekki sérlega góðir.

Þau krabbamein sem mælt er með skimun fyrir í dag eru krabbamein í ristli og endaþarmi, brjóstum og leghálsi. Með nýrri og betri tækni er mögulegt að skimað verði fyrir fleiri tegundum krabbameina í framtíðinni.

Mikilvægt er að veita athygli þeim merkjum sem líkaminn kann að gefa um að heilsunni sé hætta búin. Viss einkenni vekja grun um krabbamein, þó að vissulega geti þau einnig verið til marks um aðra kvilla. Hér má lesa nánar um helstu einkenni sem geta bent til krabbameins. 

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Lestu meira:



Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?