Eftir greiningu

Hvað nú?

Margir sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra upplifa vanlíðan og óvissu í tengslum við margt sem takast þarf á við í kjölfar greiningarinnar. Gagnlegt getur verið að nýta sér faglega aðstoð, upplýsingar og ráðgjöf sem í boði er.

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Ráðgjafarþjónustan ráðleggur meðal annars um réttindi á vinnumarkaði, fjármál, félagsleg réttindi og endurhæfingu. Einnig eru allar upplýsingar veittar um möguleika á endurgreiðslu eða styrkjum, ýmsan kostnað og hjálpartæki, tekjur í veikindum, þjónustu sem kann að vera í boði, til dæmis heimsendur matur og heimaþjónusta og fleira.

Ég var að greinast – hver eru réttindi mín?

Þegar maður veikist af alvarlegum sjúkdómi er mikilvægt að vita að það eru fyrir hendi margvísleg úrræði hvað fjárhag og réttindi varðar.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins hefur tekið saman upplýsingar um helstu úrræði sem í boði eru fyrir krabbameinssjúklinga hjá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), félagsþjónustu sveitarfélaga, stéttarfélögum og lífeyrissjóðum.

Þessari samantekt er ætlað að hjálpa fólki að fá yfirsýn yfir úrræði sem það getur hugsanlega nýtt sér í erfiðum aðstæðum.

Lestu meira:Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?