Karlar og skimanir

Hvað er skimun?

Skimun, eða skipuleg hópleit, felst í því að leitað er eftir krabbameini eða forstigum þess hjá tilteknum hópi fólks sem sýnir engin merki þess að vera með krabbamein. Markmiðið er að finna krabbamein fyrr en annars væri hægt, jafnvel á forstigi.

Á Íslandi er konum á vissum aldri boðið í skimun fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini. Ekki er skimað fyrir neinum „karlakrabbameinum“ en í undirbúningi er að hefja skimun fyrir ristilkrabbameini hjá báðum kynjum. (Lestu um ávinning ristilskimana á vef Krabbameinsfélagsins hérna ).

Hvað með krabbamein í blöðruhálskirtli?

Það eru aðallega tvær ástæður fyrir því að skipuleg hópleit fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli er almennt ekki framkvæmd. Annars vegar eru núverandi greiningaraðferðir ekki nægilega áreiðanlegar og hins vegar er það eðli sjúkdómsins.

Við mælum með að þú takir þér tíma í að lesa mjög góða samantekt um það hvers vegna ekki er almenn skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli á vef Krabbameinsfélagsins.

En hér reynum við að skýra þetta í örstuttu máli:

Ólík eðli krabbameina í blöðruhálskirtli

Tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli hækkar með aldri og raunar finnst það hjá rúmlega 80% karla sem komnir eru yfir áttrætt. Langflestir þessara karla munu þó ekki finna neitt fyrir því vegna þess að krabbamein í blöðruhálskirtli vaxa yfirleitt það hægt að þeim fylgja lítil eða engin einkenni.

Í sumum tilfellum vaxa krabbamein í blöðruhálskirtli hins vegar hratt og geta breiðst í önnur líffæri. Það eru þau tilvik sem mikilvægt er að greina.

Greiningaraðferðir

Upphafsleit að mögulegu krabbameini í blöðruhálskirtli felst annars vegar í því að mæla gildi svokallaðs PSA prótíns og hins vegar að læknir þreifar kirtilinn.

Hækkað PSA gildi getur verið vísbending um krabbamein en það eru margir aðrir þættir sem hækka PSA, til dæmis góðkynja stækkun eða hreinlega líkamleg áreynsla.

Hættan við ofgreiningar

Ofgreining er það þegar greiningarpróf segja ranglega að heilbrigður einstaklingur sé með sjúkdóm. Í tilviki blöðruhálskirtilsins má segja að greining hægvaxandi krabbameins sem aldrei myndi að valda óþægindum sé eins konar ofgreining.

Við ofgreiningu er hætta á að framkvæmdar séu ónauðsynlegar aðgerðir með tilheyrandi hættu á aukaverkunum. Í þessu tilviki væru mögulegar aukaverkanir meðal annars þvagleki og risvandamál sem klárlega minnka lífsgæði.

Það má ekki gleyma andlegum áhrifum (t.d. kvíða og vanlíðan) sem fylgja því að frétta að maður sé með krabbamein – sér í lagi ef það er kannski að ástæðulausu.

Væru núverandi greiningaraðferðir grunnur að almennri leit myndu örugglega finnast einstaklingar með hættulegt krabbamein en um leið myndi líf fjölmargra umturnast að óþörfu.

Hverjir ættu samt að leita til læknis?

Það er ákvörðun hvers og eins að meta stöðuna, helst í samráði við lækni.

Ef eitthvað af þessu á við er mikilvægt að ræða við lækni:

Tekið skal fram að hverjum og einum er í sjálfsvald sett að óska eftir skoðun hjá sínum heimilislækni en við ráðleggjum eindregið að menn kynni sér málin vel áður, bæði kosti og galla, til að geta tekið upplýstar ákvarðanir. ÁKVÖRÐUNARTÆKINU sem er að finna hér í Karlaklefanum er ætlað að aðstoða karla á aldrinum 50-70 ára sem velta fyrir sér hvort þeim henti að láta leita að vísbendingum um krabbamein í blöðruhálskirtli eða ekki. 

Áhugasömum bendum við aftur á ítarlegri samantekt um það hvers vegna ekki er almenn skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli á vef Krabbameinsfélagsins. Þar er farið ítarlegar í þessi atriði sem nefnd hafa verið hér.

Stuðningur og ráðgjöf

Á vegum Krabbameinsfélagsins starfa stuðningshópar fyrir karla sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hópurinn „Framför“ sem er fyrir alla karla sem hafa greinst með slíkt krabbamein. Innan hans er svo sérhópurinn „Frískir menn“ sem er stuðningshópur fyrir þá sem greinst hafa með blöðruhálskirtilskrabbamein og hafa möguleika á virku eftirliti í stað þess að fara í hefðbundna meðferð.

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Lestu meira:


Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?