Tilfinningamál

Stór hluti karlmanna yfir fimmtugu hefur engan sem þeir geta deilt erfiðum tilfinningum með, til dæmis varðandi sjúkdóma eins og krabbamein.

Þeir karlar sem ræða erfiðar tilfinningar treysta í langflestum tilvikum aðeins á maka sinn. Það skapar auka álag á maka sjúklinga sem bæði þurfa að styðja mann sinn og glíma við eigin áhyggjur.

Krabbamein og kynlíf

Kynlífsvandamál eru oft afleiðing af meðferð við krabbameini. Margir karlar hafa aldrei rætt hreint og opinskátt um kynlíf sitt, jafnvel eftir áratugi í sambandi. Það er því sérstaklega snúið að fara að ræða slík mál í kjölfar alvarlegra veikinda.

Við í Karlaklefanum höfum tekið saman ábendingar um kynlíf og kynlífsvandamál sem vonandi koma að gagni.

Erfið umræða

Það hefur sýnt sig að karlar hika oft við að tala opinskátt við sína nánustu aðstandendur um erfiða sjúkdóma og dauðann.

Stundum er það vegna þess að þeir vilja hlífa aðstandendum við því að velta sér upp úr erfiðum hlutum fyrirfram. Staðreyndin er þó sú að þeim aðstandendum sem fá hæfilegan tíma til undirbúnings gengur betur að vinna úr sorg í kjölfar dauðsfalls og minni líkur á að þeir glími við erfitt og langdregið sorgarferli.

Karlar hafa sjaldan frumkvæði að því að ræða við fagfólk á sjúkrastofnunum varðandi áhyggjur tengdar eigin yfirvofandi dauða. Slíkt samtal getur hins vegar reynst mörgum gagnlegt og auðveldað sjúklingum að ná betri tökum á hugsunum sínum og tilfinningum.

Ráðgjöf

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Heilbrigðisstofnanir eru margar með sálfræðinga á sínum snærum og oft geta læknar og hjúkrunarfólk gefið góð ráð og andlegan stuðning.

Lestu meira:



Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?