Aðstandendur og vinir

Það er flestum áfall þegar ástvinur greinist með krabbamein. Að mörgu er að huga og það er eðlilegt að hugsanir og tilfinningar af ýmsum toga geri vart við sig. Til dæmis velta margir fyrir sér hvernig best sé að styðja við þann veika og hvernig hægt sé að tala við börnin um krabbamein og styðja við þau. 

Aðstandendur geta haft þörf fyrir stuðning og ráðgjöf

Sumum finnst gott fyrsta skref að lesa sér til á vefnum, aðrir gætu haft gagn af því að leita til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins eða annarra fagaðila. Hugsanlega kemur þörfin fyrir stuðning og úrvinnslu ekki fram fyrr en nokkuð langt er liðið frá veikindum eða ef þau taka sig upp aftur. Það er aldrei of seint að leita sér stuðnings.

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Hvernig styð ég vin eða ættingja með krabbamein?

Þegar vinur eða ættingi greinist með krabbamein vitum við stundum ekki alveg hvað við getum gert til að hjálpa, þó að okkur langi til þess. Það þarf ekki að vera mikið. Það þarf ekki að vera flókið. Þetta snýst oft einfaldlega um að vera til staðar.

https://www.youtube.com/watch?v=7o7GIkbRH9k

 • Bjóddu fram aðstoð þína og stuðning.
 • Hlustaðu eftir því hvort hann/hún vilji tala um krabbameinið. Ef viðkomandi vill ekki tala um sjúkdóminn þá skaltu virða það.
 • Vertu góður hlustandi, hlustaðu líka eftir því sem ekki er sagt.
 • Ekki fara að tala um þína reynslu varðandi krabbamein eða reynslu annars fólks sem þú þekkir. Viðkomandi gæti þótt erfitt að hlusta á sögur annarra og hvernig fór fyrir þeim.
 • Farðu varlega í að gefa óumbeðin ráð. Spurðu spurninga eða hlustaðu.
 • Þeir sem hafa greinst með krabbamein vilja ekki alltaf bara hugsa og tala um krabbameinið.
 • Að hlæja og tala um annað er góð leið til að dreifa huganum.
 • Forðastu að segja „ég veit hvernig þér líður“ því þú veist ekki hvernig viðkomandi líður nema þú hafir reynslu af því að greinast.
 • Gerðu sömu hlutina með viðkomandi og þið gerðuð áður en veikindin komu upp ef heilsa og þrek hins veika leyfir.
 • Látið ykkur líða vel saman í þögninni. Fólk þarf að geta talað saman og þagað saman.
 • Snerting, hlýtt viðmót og bros eru oft góðar leiðir í samskiptum.
 • Sýndu stuðning þinn í verki ekki bara tala um það.

Þessi ráð eru birt með góðfúslegu leyfi Krafts og má finna í bókinni Fokk ég er með krabbamein sem Kraftur gaf út í febrúar 2019. 

Hvernig styð ég vinnufélaga sem var að greinast með krabbamein? 

Stuðningur og velvilji samstarfsfólks getur haft þýðingu fyrir þann sem greinist. Búið er að taka saman ýmis góð ráð til samstarfsfólks og plakatið " Þegar vinnufélagi fær krabbamein" sem vinnustaðir geta fengið, sér að kostnaðarlausu.Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?