Áfengi

Áfengi er staðfestur krabbameinsvaldur. Áfengisneysla eykur líkur á mörgum gerðum krabbameina, meðal annars í ristli og endaþarmi, lifur, munni, hálsi, vélinda og brjóstum. Auk þess hefur áfengisneysla margvísleg önnur skaðleg áhrif og hægt er að kynna sér upplýsingar um það hjá WHO.

Þó því sé stundum haldið fram að hófleg áfengisneysla gæti mögulega haft einhver jákvæð heilsufarsáhrif er ljóst að neikvæðu áhrifin vega alltaf mun þyngra. Áfengisdrykkja getur því ekki verið réttlætt undir merkjum heilsubótar.  

Einnig má nefna að öfugt við það sem margir halda þá hjálpar áfengi ekki til við svefn. Maður sofnar reyndar kannski aðeins fyrr, en á móti kemur að svefninn verður ekki eins djúpur og minni hvíld hlýst af. Minni eða engin áfengisneysla getur þannig leitt til betri svefns og meiri orku.

Skiptir magnið máli?

Magn áfengis skiptir máli. Því meira magn, því meiri líkur eru á krabbameinum. Þó að æskilegast sé að sleppa alfarið að drekka áfengi þá er mikilvægt að muna að það er líka alltaf til bóta að draga úr neyslunni. Því minna magn, því minni áhætta.

Á síðustu árum hefur íslensk menning þróast á þann veg að áfengi er drukkið við ýmis tilefni (og án tilefnis) árið um kring. Þannig drekkur fólk oft hugsunarlaust við hin ýmsu tækifæri, skálar í víni á mannamótum, fær sér bjór yfir sjónvarpinu og veltir því kannski ekki einu sinni fyrir sér. Óhætt er þó að mæla með því að við reynum að hafa yfirsýn og vera meðvitaðri um það hversu oft og mikið við drekkum. Gott er að minna sig á að þó að áfengi sé í boði þá þarf ekki alltaf hugsunarlaust að þiggja það.

Hér má finna ýmsar leiðir til að draga úr neyslunni:

  • Pössum að eiga ekki mikið magn af áfengi á heimilinu. Það að að eiga áfengi á heimilinu eykur líkurnar á að það sé drukkið
  • Gott er að koma sér upp reglum eða venjum varðandi áfengi á heimilinu og endurskoða þær reglulega. Er til dæmis hægt að sleppa víni með sunnudagsmatnum eða takmarka drykkju við eitt glas með matnum?
  • Þegar þú ert með matarboð er gott að vera ekki að bæta mikið á glösin hjá gestunum, því þá er líklegra að hver og einn missi yfirsýnina yfir hve mikið er drukkið
  • Notum minni vínglös, það getur minnkað magnið sem drukkið er
  • Munum að drekka líka vatn samhliða áfengi en þá er líklegra að minna verði drukkið af áfengi. Drekkum til dæmis sódavatn eða vatn með sítrónu samhliða áfengi
  • Gott er að frysta vín sem verður afgangs og nota seinna við eldamennsku frekar en að klára flöskuna
  • Ekki er æskilegt að nota áfengi til að slaka á eftir annasamann dag. Önnur leið til að slaka á er að fara til dæmis í göngutúr, sund eða heitt bað

Á mannamótum

  • Gott er að vera búinn að ákveða hvort þú ætlar að fá þér áfengi og hversu mikið að hámarki. Stattu við það
  • Minnkaðu magn áfengis til dæmis með því að velja lítið glas eða einfaldan drykk. Einnig er hægt að skoða hvað er í boði af áfengislausum drykkjum
  • Ekki láta undan þrýstingi um að drekka og ekki þrýsta á aðra að fá sér áfengi

Hér má sjá myndband frá danska Krabbameinsfélaginu sem fjallar um pressuna frá öðrum um að fá sér áfengi í nokkuð öðruvísi og fyndnu samhengi.

Áfengi og reykingar

Tóbaksreykingar samhliða áfengisdrykkju er sérlega slæm blanda því að samanlögð áhætta af reykingum og áfengi er meiri en áhættan af reykingum og áfengi hvoru fyrir sig. Þetta stafar í stuttu máli af því að þegar áfengi er drukkið, hefur það þau áhrif á slímhúð m.a. í munni og koki að krabbameinsvaldandi efni úr tóbaksreyknum eiga greiðari aðgang.

Ef þú ert einn þeirra sem reykir bara þegar þú færð þér í glas þarftu að vera meðvitaður um að þeir smókar eru af allra hættulegustu gerð, þótt þeir séu ekki margir.

Lestu meira 

 Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?