Sólin getur bitið

Útfjólublá geislun (frá sól eða ljósabekkjum) getur valdið húðkrabbameini, meðal annars sortuæxlum sem er alvarlegasta gerðin, og húðin getur orðið fyrir skaða án þess að við upplifum sólbruna.

Sólbruni og annar skaði af völdum útfjólublárrar geislunar er ekki bara vandamál í heitari löndum, íslenska sólskinið getur líka verið varasamt – jafnvel þótt lofthitinn sé ekki hár og meira að segja þó það sé skýjað.

Sólarljós gefur okkur vissulega D-vítamín, en það þarf ekki nema nokkrar mínútur af útiveru til að fá dagsskammtinn. D-vítamínsöfnun er að minnsta kosti ekki nothæf afsökun fyrir því að steikja sig langtímum saman.

Áhugasamir geta fylgst með daglegum spágildum útfjólublárrar geislunar (UV-stuðli) hjá Veðurstofunni og Geislavörnum . Almennt er miðað við að UV-stuðull yfir 3 sé hættulegur fyrir húðina.                      Sem dæmi þá fór stuðullinn nánast daglega yfir 4 sólarsumarið 2019.

Góð ráð í sólinni

Þótt það sé freistandi eftir íslenska veturinn að rífa sig úr að ofan við öll tækifæri eru áhrif sólargeislunar lúmsk, ekki síst vegna þess að rúmlega 80% útfjólublárrar geislunar frá sól berst í gegnum skýjahulu og lofthiti segir ekkert um styrk útfjólublárrar geislunar.

Við alla útiveru og útivinnu er mikilvægt að gæta sín á sólinni. Á Íslandi er geislun af völdum sólar mest milli kl. 11 og 16 og nær hámarki um 13:30.

Öflugasta sólarvörnin er auðvitað að halda sig í skugga þegar geislunin er mest, en utan skuggans skiptir fatnaður og sólvörn mestu máli. Léttar síðerma flíkur, gott höfuðfat og vönduð sólgleraugu hlífa bæði húð og augum. (Fyrir utan það auðvitað hvað rétt höfuðfat getur verið klæðilegt!)

Best er að velja sólarvörn með allavega SPF 30 því annars getur hún veitt falskt öryggi. Sólarvörnin þarf tíma til að ná fullri virkni, þannig að best er að bera hana á sig 20-30 mínútum áður en farið er út. Það þarf líka að bæta á vörnina á nokkurra tíma fresti.

Vatn og snjór spegla stórum hluta útfjólublárrar geislunar og vissar aðstæður geta þannig magnað geislunina (t.d. sund, veiði eða jöklaferðir). Sólarvarnir eru sérlega mikilvægar í hálendisferðum þar sem geislunin eykst með aukinni hæð yfir sjávarmáli.

Karlar og húðkrabbi

Við karlarnir glímum við tvennt þegar kemur að húðkrabba: Annars vegar erum við lélegri en konur að verja okkur fyrir sólinni og hins vegar fylgumst við síður með breytingum á húðinni og förum síður í tékk til húðlækna heldur en konur.

Skaði af völdum geislunar getur valdið húðkrabba sem ekki kemur fram fyrr en löngu eftir að geislunin sjálf átti sér stað. Það er því mikilvægt að safna ekki upp geislunarskaða að óþörfu.

Við þurfum því að gæta að okkur áður en við rífum okkur úr að ofan í garðverkunum, fótboltanum, fjallgöngunni eða malbikunarvinnunni. Pössum að minnsta kosti að hafa góða sólarvörn til taks þegar geislar sólarinnar freista okkar.

Lestu meira:Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?