Reykingar og tóbak

Tóbaksnotkun veldur miklum skaða og er helsta orsök krabbameins sem hægt væri að koma í veg fyrir. Það er aldrei of seint að hætta að nota tóbak. Það er alltaf klár ávinningur af því, sama hversu langt er síðan maður byrjaði eða hvað maður er gamall.

Eru það bara sígarettur sem eru hættulegar?

Reykingar eru hættulegasta form tóbaksnotkunar en það er mikilvægt að átta sig á því að það er engin skaðlaus leið til að nota tóbak. Neftóbak (þar á meðal snus) og munntóbak innihalda einnig efni sem eru þekktir krabbameinsvaldar.

Sumir krabbameinsvaldar eru náttúruleg innihaldsefni tóbaksplöntunnar sjálfrar, aðrir myndast við bruna tóbaks eða framleiðsluferlið. Samfelld tóbaksnotkun eða langvarandi óbeinar reykingar veldur því að fólk er stöðugt útsett fyrir krabbameinsvaldandi efnum sem eykur líkur á krabbameinum verulega.

Notkun rafsígaretta (að veipa) hefur stóraukist á síðustu árum, ekki síst meðal ungs fólks. Talið er að minni hætta sé á að sjúkdómar fylgi notkun þeirra en tóbaksreykingum. Því er líklegur ávinningur fyrir reykingafólk að skipta sígarettum út fyrir rafsígarettur.

Hins vegar skyldi ekki telja sér trú um að rafsígarettur séu með öllu skaðlausar og vitað er að ungt fólk sem byrjar að veipa er líklegra en aðrir til að prófa að reykja í kjölfarið. Rafsígaretta hitar vökvalausn sem leysist upp í örsmáar agnir sem er andað ofan í lungum. Að minnsta kosti 60 efnasambönd, sum krabbameinsvaldandi, hafa fundist í rafsígarettuvökvum og enn fleiri í gufunni, auk þess sem bragðefni geta innihaldið krabbameinsvaldandi efni. Langtímaáhrif rafsígaretta eru enn óþekkt og mun það taka áratugi að koma í ljós hvort það að veipa auki líkur á krabbameinum eða öðrum sjúkdómum.


Lestu meira:Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?