Reynslusaga

Þetta kemur ekki fyrir mig

Sveinn Björnsson, 45 ára, ristilkrabbamein

Það var bjartur vordagur árið 2018 þegar Sveinn Björnsson leitaði til læknis með grun um að hann væri með magasár. Mikið álag hafði þá verið á Sveini vegna vinnu og hann verið farinn að finna fyrir ónotum og öðrum einkennum. Honum gekk líka illa að klára á klósettinu. 

Á blakmóti á Akureyri sagði hann vini sínum frá einkennunum. Tengdapabbi vinarins hafði greinst með krabbamein en dregið of lengi að fara til læknis svo hann hvatti Svein til að drífa sig.

„Ég var í góðu líkamlegu formi, engin fjölskyldusaga um krabbamein og læknirinn sagði að ég fittaði ekki inn í boxið. Þetta væri líklega hægðatregða sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af. En af því ég var nýorðinn 45 ára sendi hann mig í speglun. Áður en ég komst í hana var byrjað að blæða með hægðum og ég farinn að hafa smá áhyggjur af því að þetta væri nú eitthvað meira en hægðatregða.“

Sveinn Björnsson

Þruma úr heiðskíru lofti

Sveinn greindist með krabbamein í ristli. „Greiningin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þetta gat ekki verið. „Hvaða vitleysa er þetta í þér,“ sagði ég við Steingerði sem greindi mig. Þetta kemur ekki fyrir mig, var það eina sem ég hugsaði. Læknirinn sagði hins vegar „Þetta er eins og þegar þú ferð í Olsen Olsen. Þú dregur bara eitt spil og veist ekki hvað þú færð.““

Sveinn starfar sem byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar og fór beinustu leið í vinnuna þar sem hann þurfti að ganga frá nokkrum málum. „Sá fyrsti sem tók á móti mér var bæjarstjórinn og hann spurði hvað ég þyrfti langan tíma í frí. Ég sagðist ekki þurfa neitt frí. „Ertu eitthvað ruglaður? Kannski 2-3 daga.“ Síðan var mér bara sagt að fara heim.“

Þegar skurðlæknirinn hringdi svo í Svein gerði hann sér fyrst grein fyrir að þetta væri alvarlegt. „Greiningin var líklega meira áfall fyrir konuna og börnin en mig. Systir mín tók sig til og hélt fjölskyldufund fyrir alla. Eldaði súpu og þar voru málin rædd. Það var mjög fínt,“ segir Sveinn og leggur áherslu á að börnin fái stuðning: „Því við þurfum að heyra hvernig þeim líður. Við höfum auðvitað rætt að pabbi sé veikur, en ég var aldrei veikur, ég hélt alltaf fullri heilsu.“ 

Körfuboltadómarinn fór of fljótt af stað

Sveinn starfar einnig sem körfuboltadómari og var að undirbúa sig undir þrekpróf áður en hann fékk greininguna. Hann hafði það að markmiði að byrja aftur að dæma eftir aðgerðina enda fannst honum heilsan góð og hann hélt áfram hlaupum og æfingum: „En ég finn eftir á að það hefur komið í bakið á mér. Ég náði þrekprófinu með herkjum, eiginlega bara á þrjóskunni og dæmdi nokkra leiki. En svo gafst ég upp um áramótin. Þetta var bara of mikið fyrir mig. Ég var alls staðar meiddur í líkamanum og þá fann ég hversu líkamlega veikur ég var í raun og veru. Ég fór því í veikindaleyfi um áramótin og er enn í því.“

Sveinn fann fyrir stuðningi allt í kringum sig og sótti styrk í það. Hann talaði opinskátt um að hafa greinst með ristilkrabbamein, en fannst erfiðasti tíminn þegar hann var heima í veikindafríi og hafði ekki mikið fyrir stafni: „Það var eiginlega glatað. Ég vaknaði með fjölskyldunni klukkan sjö eins og vanalega, labbaði svo til pabba og við fórum á rúntinn. Þetta var nú svona rútínan.“

Hundleiðinlegur og skapstyggur

Að greinast með krabbamein er áfall og hefur áhrif á andlega líðan. Sveinn áttaði sig ekki á því hversu mikil áhrif veikindin höfðu á hann fyrr en vinnufélagarnir bentu honum á það: „Ég var ekki þessi létti gaur sem ég hef alltaf verið í vinnunni, hrókur alls fagnaðar. Einn kom inn á skrifstofu til mín og sagði: „Veistu hvað, þú ert orðinn hundleiðinlegur og skapstyggur.“ Og þá áttaði ég mig á því að ég þyrfti aðstoð. Ég hringdi í sálfræðing og það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið.“

„Þegar menn spyrja hvernig ég hafi það segist ég hafa það alveg svakalega fínt líkamlega, en ekki andlega. Mér finnst það miklu erfiðara en að glíma við einhver meiðsli í skrokknum. En ég er að vinna í því.“

Sveinn segist ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en fyrir stuttu hversu mikið inngrip það er að lenda í svona ferli og þakkar fyrir hversu vel fór: „Það var bara algjör heppni að krabbameinið var ofarlega í ristlinum. Það var búið að undirbúa mig undir að vakna með stómapoka og alls konar af því þeir vissu ekki fyrir aðgerðina hvernig þetta leit út. Ég slapp við lyfjameðferð. Ég slapp við stóma og er laus við meinið. Ég er bara ótrúlega heppinn í óheppninni.“

Sveinn hvetur aðra til að vera vakandi fyrir einkennum og leita læknis: „Já, og fara í ristilspeglun. Ég er bara 45 ára og það eru fimm ár þar til ég á að fara að huga að þeim málum, svo ekki bíða. Ef ég hefði beðið hefði ég líklega ekki náð þeim aldri.“

Viðtalið var tekið árið 2018.


Nánari upplýsingar um ristilkrabbamein er að finna á heimasíðu Krabbameinsfélagsins. Þar eru einnig upplýsingar um einkenni eða merki sem líkaminn sendir sem mikilvægt er að vera vakandi fyrir og gætu verið til marks um krabbamein.

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á aðstoð félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga fólki að kostnaðarlausu. Þar eru einnig í boði ýmis námskeið og fyrirlestrar.

Stómasamtökin veita jafningjastuðning og hjá þeim er hægt að komast í samband við fólk í sambærilegri stöðu. Nánari upplýsingar um ristilstóma er að finna á heimasíðu samtakanna.Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?