Krabbamein í blöðruhálskirtli

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum á Íslandi. Á hverju ári greinast rúmlega 240 karlar með meinið. Lífshorfur fara eftir því hvort krabbameinið er staðbundið, þ.e. eingöngu í blöðruhálskirtlinum eða hafi dreift sér víðar, og hve hraður sjúkdómsgangurinn er. Um 90% þeirra sem greinast með sjúkdóminn lifa lengur en fimm ár frá greiningu og nú eru á lífi um 2.400 karlar á Íslandi með blöðruhálskirtilskrabbamein.

Leit að vísbendingum um mögulegt krabbamein í blöðruhálskirtli felur í sér mælingu á mótefnavakanum PSA (Prostate Specific Antigen) sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Með blóðprufu er hægt að mæla gildið fyrir PSA.

EF þú ert einkennalaus og enginn sérstakur grunur leikur á að þú sért með blöðruhálskirtilskrabbamein, er almennt hvorki mælt með né á móti því að þú látir mæla PSA hjá þér ef þú ert á aldrinum 50-70 ára og ekki mælt með því ef þú ert yngri en 50 ára.

Það gæti nefnilega gerst að hægvaxandi æxli sem aldrei myndi valda skaða greinist og það getur aftur leitt til þess að þú gangist undir óþarfa meðferð sem getur haft alvarlegar aukaverkanir. Þess vegna er ekki í boði skipulögð skimun fyrir blöðruhálskirtli, hvorki hérlendis né annars staðar í heiminum.

Hafir þú áhuga á að láta leita að blöðruhálskirtilskrabbameini hjá þér er æskilegt að fá aðstoð læknis eða annars fagaðila við að taka upplýsta og einstaklingsmiðaða ákvörðun.

Ert þú með einkenni frá þvagvegum?

  • Áttu erfitt með að byrja þvaglát?
  • Er þvagbunan kraftlítil?
  • Dropar í lok þvagbunu?
  • Er erfitt að tæma þvagblöðruna?
  • Ertu með tíð þvaglát (sérstaklega á nóttunni)?
  • Hefur þú fengið blöðrubólgu?
  • Ertu með verki eða óþægindi við þvaglát?
  • Er blóð í þvagi eða sáðvökva?

Blöðruhálskirtillinn er undir þvagblöðrunni og umlykur efri hluta þvagrásarinnar. Krabbamein í blöðruhálsi veldur oft engum einkennum en stundum getur það þrýst á þvagrásina og valdið einu eða fleiri af einkennum að ofan. Einkennin geta þó stafað af öðru en krabbameini, meðal annars góðkynja sjúkdómum í blöðruhálskirtli, bólgu eða sýkingu. 

Ef blöðruhálskirtilskrabbamein hefur dreift sér til annarra líffæra getur það valdið beinverkjum, þreytu, slappleika og þyngdartapi. Mikilvægt er að hafa samband við lækni vakni grunur um krabbamein.

Ertu kannski að spá í önnur einkenni krabbameina?

Grunar þig að þú sért með blöðruhálskirtilskrabbamein?

Einkenni sem ágerast hratt eða koma hjá körlum undir fimmtugu þarf alltaf að rannsaka. Ef þú ert með einkenni frá þvagvegum, náinn ættingi hefur greinst með meinið eða þig grunar af öðrum orsökum að þú sért með blöðruhálskirtilskrabbamein er mikilvægt að leita til heimilislæknis eða þvagfæraskurðlæknis. Þá verður kannað hvort þú sért með blöðruhálskirtilskrabbamein.

Ef þú leitar til heimilislæknis eða þvagfæraskurðlæknis vegna gruns um blöðruhálskirtilskrabbamein mun hann að öllum líkindum þreifa blöðruhálskirtilinn um endaþarm. Með þreifingu má greina hnúta eða óregluleg svæði á kirtlinum og hvort hann sé óeðlilega stór.

Eftir aðstæðum mun læknirinn ræða við þig um þann möguleika að mæla með blóðprufu hvort hækkun sé á mótefnavakanum PSA (prostate-specific antigen) sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Einnig mun hann ræða við þig um frekari rannsóknir ef ástæða þykir til, svo sem vefjasýnatöku eða myndgreiningu.

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Hverjir eru áhættuþættir blöðruhálskirtilskrabbamein?

  • Aldur. Líkurnar byrja að aukast eftir fimmtugt og halda svo áfram að aukast með hækkandi aldri.
  • Ættarsaga. Líkurnar aukast ef faðir, bróðir eða sonur hafa greinst með meinið.
  • Kynþáttur. Karlar af afrískum uppruna eru með hærri líkur en aðrir.
  • Stökkbreyting í BRCA2 geni eykur hættuna á meininu og að sjúkdómurinn sé alvarlegur.
  • Lífsstíll. Ofþyngd eða offita eykur líkur á langt gengnu blöðruhálskirtilskrabbameini. Því er alltaf góð hugmynd að auka hreyfingu, minnka kyrrsetu og borða hollan og fjölbreyttan mat. Neysla fæðubótarefna virðist ekki tengjast líkum á meininu.

Lestu meira:

 

 



Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?