Eistnakrabbamein

Krabbamein í eistum eru frekar sjaldgæf en hafa samt þá sérstöðu að vera algengustu illkynja æxli ungra karlmanna (25-39 ára). Árlega greinast um 14 karlar hérlendis og meðalaldur við greiningu er 34 ár. Eistnakrabbamein er eitt fárra krabbameina sem hægt er að lækna þrátt fyrir að sjúkdómurinn hafi dreift sér til annarra líffæra og eru um 98% á lífi fimm árum eftir greiningu.

  • Algengasta krabbamein ungra karla (25-39 ára) á Íslandi
  • 34 ár er meðalaldur við greiningu
  • 98 prósent nýgreindra lifa lengur en fimm ár frá greiningu
  • 14 karlar greinast árlega

Finnur þú fyrir einhverjum breytingum í eistunum?

Þó að yfirleitt séu engin sérstök einkenni til að byrja með geta menn samt fundið fyrir:

  • Þyngdartilfinningu í eista
  • Stækkun (sársaukalaus) á öðru eista
  • Óljósum verkjaseiðing

Grunar þig að þú sért með eistnakrabbamein?

Eistnakrabbamein uppgötvast oftast þegar einstaklingurinn finnur hnút eða þykkildi í öðru eistanu. Slík einkenni geta átt sér saklausar orsakir en ef þú hefur fundið fyrir slíkum einkennum og þau ganga ekki til baka innan þriggja vikna ættir þú að leita til læknis.

Ertu að spá í að láta kanna hvort þú sért með krabbamein í eistum?

Ef þú finnur ekki fyrir neinum einkennum og hvorki faðir þinn né bróðir hefur greinst með meinið ætti að vera óþarfi að láta kanna það sérstaklega. Hinsvegar ættir þú að venja þig á að þreifa eistun mánaðarlega. Með því áttarðu þig á því hvernig þau eru venjulega og tekur fyrr eftir því ef einhverjar breytingar verða. Leiðbeiningar um sjálfskoðun eistna.

Hvað orsakar krabbamein í eistum?

Yfirleitt er ekki ljóst hvað veldur krabbameini í eistum, en þó er vitað að það eykur líkurnar á sjúkdómnum ef eista hefur ekki gengið á eðlilegan hátt niður í punginn á fósturskeiði, ef vanskapanir eru í kynfærum og ef faðir eða bróðir hafa greinst með sjúkdóminn.

Fagfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins býður ráðgjöf, stuðning og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig geta þeir sem hafa spurningar eða grun um krabbamein haft samband. Síminn er opinn alla virka daga: 800 4040 og hægt er að senda tölvupóst á netfangið radgjof@krabb.is. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga.

Lestu meira:



Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?