Blöðruháls­kirtils­krabbamein er flókinn sjúkdómur

- Víða er reynt að bæta greiningaraðferðir krabbameins í blöðruhálskirtli

 

Karlaklefinn rakst á áhugaverða frétt á vefmiðlinum Akureyri.net. Þar er rætt við Baldur Auðunn Vilhjálmsson, meistaranema í hagnýtri eðlisfræði í Óðinsvéum, sem ásamt samnemendum tók þátt í alþjóðlegri keppni í lífhönnun á dögunum. Fyrir keppnina hannaði hópurinn próf sem greinir ákveðin efni í munnvatni og þvagi, sem talin eru geta bent til þess að karlmaður sé með blöðruhálskirtilskrabbamein eða í hættu á að þróa það með sér. Verkefnið er á frumstigi og ekki er hægt að segja til um hvort það verði að raunverulegu prófi, en samkvæmt Baldri er mikill áhugi innan hópsins á að halda áfram með verkefnið og sjá hvert það leiðir.

Karlaklefinn fagnar eldmóðnum hjá hópnum og árangrinum í keppninni. Það er sannarlega aðdáunarvert þegar frumkvöðlar og öflugt hugvitsfólk um allan heim reynir að vinna að framförum á sviði krabbameina.

Blöðruhálskirtilskrabbamein er þó flókinn sjúkdómur og meðal annars frábrugðinn flestum öðrum krabbameinum að því leyti að það er ekki alltaf kostur að meinið greinist snemma. Það stafar af því að erfitt er að greina í sundur annars vegar þau fjölmörgu mein sem eru mjög hægvaxandi og ólíkleg til að valda heilsutjóni og hins vegar mein sem vaxa hraðar og geta dreift sér til annarra líffæra og valdið heilsutjóni. Markmiðið þarf að vera að greina þau mein snemma sem líkleg eru til að valda skaða en á sama tíma forðast að greina og meðhöndla mein sem ekki munu valda skaða.

Þeir einkennalausu karlmenn sem eru að velta fyrir sér að láta leita að vísbendingum um krabbamein í blöðruhálskirtli eru hvattir til að kynna sér málið vel og taka upplýsta ákvörðun.

Það er flóknari ákvörðun en margir að halda að ,,láta tékka á sér“ – eða ekki.

Ákvörðunartækið hér á síðunni aðstoðar karlmenn á aldrinum 50-70 ára að taka upplýsta ákvörðun um hvort það henti þeim að láta leita að vísbendingum um krabbamein í blöðruhálskirtli.