Frisbígolf – skemmtileg hreyfing

Við kíktum á Birgir Ómarsson sem er frumkvöðull Frisbígolf (Folf) íþróttarinnar hér á Íslandi og fengum hann til að segja okkur allt um Folfið. 

Frisbígolf, Folf, er afþreying sem allir geta spilað og hefur verið að skjóta rótum hér á landi. Frisbígolf er spilað eftir golfreglunum og snýst um að koma disknum í körfuna í sem fæstum köstum.

Birgir Ómarsson  frumkvöðull Frisbígolf (Folf) íþróttarinnar á Íslandi

Birgir segir fólk yfirleitt fljótt að komast upp á lag með að kasta og eru framfarir yfirleitt mjög hraðar. Hægt er að jafna getuna með því að spila af ólíkum teigum þar sem það er í boði.

Óhætt er að segja að íþróttinni hafi vaxið fiskur um hrygg því nú eru yfir 70 frisbígolfvellir komnir um allt land. Frítt er að spila á völlunum en mæta þarf með eigin diska og í raun nægir einn diskur þó að spilarar séu fljótir að átta sig á að 3-5 diskar skila yfirleitt betri árangri.

Frisbígolfdiskar eru ólíkir hefðbundnum diskum að því leyti að þeir eru minni og þyngri sem gerir þá auðveldara að kasta lengra og í vindi. Diskarnir skiptast í þrjá flokka, Pútter fyrir nákvæmu og stuttu köstin, Miðari fyrir milliköstin sem þurfa að vera nákvæm og Drífarinn en hann er dræver fyrir lengstu köstin.

Frisbígolf er því fín hreyfing fyrir alla og auðvelt er að spila allt árið svo fremi að körfurnar standi upp úr snjónum yfir háveturinn.

Allir út að Folfa.