Krabbamein í blöðruhálskirtli: Leikaðferðir í vörn og sókn - I

Fyrri hluti

Karlaklefinn hefur fengið til liðs við sig sprækan gestapenna: Sjúkraþjálfarann Lárus Jón, Lalla, sem lætur sig heilsu karla varða, ekki hvað síst neðanbeltis, og hvetur þá til að vera upplýstari um sín mál á neðri hæðinni.

Lalli nálgast málin á sinn lauflétta hátt og hér skulum við gefa honum orðið varðandi það hvernig við getum dregið úr líkunum á því að fá krabbamein í blöðruhálskirtil:

Karlar_i_krapinu

Ef þú rambaðir óvart inn á þennan pistil í leit að svörum við því hvort þú sért „kynþokkafullur með yfirvaraskegg í augum kvenna“ þá skaltu hætta að leita. Svarið er nei. Allavegana þykir konunni minni það ekki. Áherslan í þessum pistli og öðrum sem á eftir kemur er á blöðruhálskirtilskrabbamein og forvarnir gegn því en athugið að ég býð ykkur hér upp á einstaklega góðan díl - því þó þú sért með glimrandi góðan blöðruhálskirtil þá hjálpa ráðleggingarnar líka við að minnka líkurnar á öðrum krabbameinum, hjartaáfalli, sykursýki, heilablóðfalli, heilabilun og fjölda annarra sjúkdóma.

Þarmaflóran, góðgerlar og hægðir

Ég fór á fyrirlestur um daginn um mikilvægi þarmaflórunnar í tengslum við líkamlega og andlega heilsu. Allt frá ofnæmi og kvíða yfir í krabbamein og alvarlega geðsjúkdóma. Eftir fyrirlesturinn hugsaði ég – starfandi sem sjúkraþjálfari – að ég þyrfti að tala við alla mína skjólstæðinga um þarmaflóruna, góðgerla og hægðir.

Mér leið eins eftir að hafa lesið bókina ´Why do we sleep` eftir Matthew Walker. „Svefninn er lykillinn að öllu“ hugsaði ég. Vikurnar eftir gerði ég ekki annað en að ræða um svefn við fólkið mitt.

  • 8 tíma svefn og mótaðar hægðir. Þetta er lífið.

Síðan horfir maður á Boga Ágústsson segja frá konu í Hörgársveit sem heldur upp á 112 ára afmælið sitt. Hún skrópaði alltaf í leikfimi, fór seint að sofa, hefur verið með króníska hægðatregðu og reykt tvo pakka á dag frá 14 ára aldri.

  • 8 tíma svefn og mótaðar hægðir. Pff!

En höldum hestunum hægum. Þið hafið heyrt um undantekninguna sem sannar regluna. Auðvitað eru alltaf til dæmi um einstaklinga sem fylgja ekki „reglunum“ en virðast einhvern veginn alltaf vera „með´idda“ og komast upp með allt.

Hlutir sem passa vel saman

Það eru þó ákveðnir hlutir sem vitað er að passa vel saman. Til að minnka líkurnar á lungnakrabbameini skaltu ekki reykja. Til að minnka líkurnar á tannskemmdum skaltu bursta tennurnar. Til að gera pizzu betri skaltu setja á hana ananas.

Nú ætlum við einmitt að velta fyrir okkur hlutum sem passa vel saman við krabbamein í blöðruhálskirtli – eða öllu heldur – hluti sem gott er að gera (eða ekki gera) til að minnka líkurnar á því að fá blöðruhálskirtilskrabbamein eða að það þróist í slæma átt hjá þeim sem hafa greinst með slíkt mein á frumstigi.

Krabbamein á alltaf rætur að rekja til þess að skemmdir verða á erfðaefni frumu. En hvað er það sem veldur skemmdunum og breytir t.d. heilbrigðri blöðruhálsfrumu í krabbameinsfrumu ? Þar spila alltaf saman margir þættir og geta til að mynda léleg næring, mikil ofþyngd, veikindi, krónísk bólga eða sýkingar, streita og veikindi átt þátt í þeirri þróun.

Sumir bera líka í sér erfðaþætti sem gera þá líklegri til að fá sérstök krabbamein. Ef faðir, bróðir eða sonur þinn hefur greinst með blöðruhálskirtilskrabbamein ert þú í aukinni hættu. Þrátt fyrir aukna gena-hættu er samt ekkert víst að þú fáir krabbameinið, þættir eins og nefndir eru hér að ofan hafa líka áhrif í þeim tilfellum.

Varnarleikur og sóknarleikur

Við munum bæði spila varnarleik og sóknarleik. Varnarleikurinn felur í sér þætti sem gott er að draga úr. Sóknarleikurinn felur aftur á móti í sér þætti sem gott væri að innleiða. Við munum huga að andlegum þáttum, næringu og síðast en ekki síst hreyfingu. Finna hina (eftir-því-sem-næst-verður-komist) fullkomnu taktík.

Andlegir þættir

Líkami og hugur leika stórt hlutverk saman. Hvort sem þú ert að undirbúa þig fyrir lokapróf, tekst á við sjúkdóm eða ert bara að reyna að standa þig vel í daglega lífinu þá eru meiri líkur á betri ákvarðanatökum ef þú ert í góðu andlegu jafnvægi. Ef þú ert svangur og vansvefta eru meiri líkur á að þú takir slæmar ákvarðanir – eitthvað sem þú kannast við? Ef svarið er nei, þá ertu að ljúga.

Ef þú ert svangur og þreyttur í Bónus, hvort eru meiri líkur á að þú grípir með þér lífrænt ræktaðar döðlur eða Snickers?

Nákvæmlega.

Streita veldur snjóboltaáhrifum

Langvarandi streituástand er ekki gott fyrir okkur – því eins og áður segir – mikil streita til lengri tíma ýtir frekar undir slæma ákvarðanatöku en hitt. Langvarandi streita getur valdið meiri afleiðingum en það að kaupa eitt skitið Snickers. Langvarandi streita og álag getur valdið því við borðum almennt óhollt, við sofum almennt illa og við hreyfum okkur almennt lítið. 

  • Gott andlegt jafnvægi = góðar ákvarðanir = Borðum vel, sofum vel og hreyfum okkur

  • Lélegt andlegt jafnvægi = slæmar ákvarðanir = Borðum illa, sofum illa og hreyfum okkur ekki

Ok ég veit þetta er mjög mikil einföldum. Ég fæ kannski engin Nóbelsverðlaun í stærðfræði fyrir þessa jöfnu en einfalt getur alveg verið gott.

Ef við hugsum um krabbamein – hvort sem það er blöðruhálskirtilskrabbamein eða eitthvað annað – þá er gott mataræði, góður svefn og regluleg hreyfing mikilvægir þættir þegar kemur að forvörnum. Af þessu má áætla að það að huga að andlegu hliðinni – takmarka streitu og álag – skilar sér í minnkuðum líkum á alvarlegum sjúkdómum.

Andlegar forvarnir

Ef þú upplifir mikla og langvarandi streitu í þínu lífi skaltu velta þessu fyrir þér. Eitthvað sem þú hefur ekki horft til áður – eitthvað sem er fyrir utan þægindaramman – er kannski akkúrat það sem þú þarft núna. Ekki vera hræddur við að prófa núvitund, jóga eða Tai Chi. Notaðu tónlist til að hjálpa þér að slaka á. Síðast en ekki síst skaltu huga að svefninum.

Ef þú hefur alltaf tengt jóga og hugleiðslu við hippa með sítt skegg sem klæðast kuflum og ganga alltaf um á tánum, þá er það – ótrúlegt en satt – ekki þannig. Ég þekki til dæmis einn jógakennara sem heitir Sigrún. Hún er ekki með neitt skegg og klæðir sig bara frekar venjulega.

Næring

Borðaðu hollt - Takk fyrir mig.

...

Nei ok – ég hlýt að geta kreist fram nokkur orð um það sem þú lætur ofan í þig. Ég ætla allavegana að byrja á einni snilld – sem er svo ótrúlega augljós – en svo ótrúlega gott að hafa í huga:

  • Það ert þú sem ákveður hvað þú lætur ofan í þig.

Fjöldi rannsókna sýnir fram á að tengsl eru milli mataræðis og heilsufars. Þar með taldar líkurnar á krabbameinum.

Betra mataræði

Sumar ráðleggingar varðandi mataræði eiga almennt við um krabbamein í sinni víðustu mynd. Það að neyta grænmetis og ávaxta í fjölbreyttri mynd er almennt gott fyrir okkur. Við kjósum frekar heilkornavörur (bless bless franskbrauð og hæhæ heilhveitibrauð) og svo eru baunir, hnetur og fræ af hinu góða. Við viljum takmarka magn á rauðu kjöti og hafa sem minnst af unninni kjötvöru (hangikjöt, pulsur, beikon og fleira) í okkar daglega neyslumynstri. Fiskur – bæði bleikur og hvítur – er sömuleiðis góður fyrir okkur.

Það þarf varla að taka það fram en skyndibiti og bakkelsi – matur sem inniheldur mikla fitu og sykur – er eitthvað sem okkur ber að forðast. Sykruðum drykkjum ætti líka að halda í lágmarki eða sleppa alveg.

Ok – ég hljóma kannski eins og leiðinlegasti maður í heimi en hey – kannski gef ég út matreiðsluþætti einhvern tímann með fullt af girnilegum uppskriftum með ofangreinda hluti í huga. Reyni að vera jafn seyðandi og vinkona mín Nigella Lawson (ég er huge fan) en ég verð kannski aðeins minna í súkkulaðikökunni en hún.

En þó við kjósum hollari mat umfram óhollan – heilhveitibrauð með laxi og svörtu&sykulausu kaffi umfram franskbrauð með hangikjöti og frappuccino (ok mjög skrýtið combo) – þá þurfum við líka að huga að skammtastærðinni. Of stórir skammtar ýta frekar undir þyngdaraukningu en það er einmitt einn þeirra þátta sem við viljum forðast – hvort sem við erum að hugsa um krabbamein í blöðruhálskirtli eða bara krabbamein almennt.

Mjólkurvörurnar

Þegar kemur að tengslum mataræðis og blöðruhálskirtilskrabbameins sérstaklega er gott að hafa einn ákveðinn fæðuflokk í huga: mjólkurvörur.

Rannsóknir hafa sýnt að við ættum að takmarka neyslu á mjólkurvörum við tvo skammta á dag og velja fitulitlar vörur. Þegar ég segi tvo skammta á dag þá er ég ekki að tala um tvö heil oststykki á dag. Einn skammtur er um það bil eitt fjörmjólkurglas, ein skyrdolla eða tvær góðar ostsneiðar. Ostsneiðar sagði ég – ekki oststykki.

Þetta er komið gott í bili. Ef þér finnst þú vera týndur í hugleiðslu-/ og næringarpælingum skaltu ekki vera hræddur við að leita þér hjálpar. Skoðaðu mismunandi hluti, ræddu við þína nánustu og/eða leitaðu til fagmanna.

Næst tökum við hreyfinguna fyrir!

Lalli #nedanbeltis sjúkraþjálfari,
Umsjónarmaður Neðanbeltis – Karlaheilsa á Facebook og Instagram
#karlaheilsa
#leavenomanbehind