Hreyfing

Það er margt sem gerist í líkamanum þegar þú hreyfir þig. 

Við reglulega hreyfingu lækkar blóðþrýstingur og kólesteról, hjartað styrkist og lungun þenjast betur út sem eykur súrefnisflæði til líffæranna. Hreyfing getur dregið úr þreytu og aukið líkamlega og andlega orku og vellíðan. Bein, liðamót og vöðvar styrkjast. Hreyfing hefur áhrif á innkirtlakerfið, ónæmiskerfið og ýmis efnaskiptaferli og auðveldar þyngdarstjórnun. 

Hreyfing dregur úr líkum á ákveðnum tegundum krabbameina, sérstaklega má nefna í ristli og endaþarmi. Auk þess veitir hreyfing vernd gegn hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki og fleiri sjúkdómum.

Svo lengi sem hún fer ekki út í öfgar er öll hreyfing jákvæð, og því meiri hreyfing, því betra. Æskilegt er að hreyfa sig rösklega, þannig að hjartsláttur og öndun aukist, í að minnsta kosti hálftíma á dag. 

Lestu nánar um hvernig hreyfing dregur úr líkum á krabbameinum á krabb.is.

Hugmyndir til að koma þér í gang:

 1. Stattu í 10 mín í stað þess að sitja – við skrifborðið í vinnunni eða á meðan þú drekkur kaffið
 2. Gakktu auka 50 tröppur – það gæti komið þér á óvart hvað það er lítið mál
 3. Finndu þá brekku sem næst er heimilinu og gakktu fimm ferðir upp og niður
 4. Fáðu barn eða hund með þér í göngutúr og fáðu nýtt sjónarhorn á umhverfið
 5. Stattu á meðan þú brýtur saman þvottinn við borðstofuborðið
 6. Leggðu eins langt frá innganginum í vinnuna og hægt er, aukaskrefin telja
 7. Drífðu þig í sund og syntu allavega 250 metra
 8. Gerðu armbeygjur á tánum eða hnjánum: tvær umferðir af tíu armbeygjum
 9. Gakktu á staðnum á meðan þú tekur símtalið
 10. Gerðu rólegar teygjuæfingar í 10 mín
 11. Nýttu vorbirtuna í morgungöngu fyrir vinnu, hún þarf ekki að vera nema 10 mín
 12. Taktu ruslapoka í göngutúr um hverfið þitt eða uppáhalds útivistarsvæðið þitt og plokkaðu rusl
 13. Gerðu grindarbotnsæfingar á meðan þú brýtur saman þvottinn – já karlar jafnt sem konur
 14. Ryksugaðu íbúðina á mettíma og finndu hvað það tekur á
 15. Taktu kvöldgöngu fyrir svefninn og finndu hvað þú sefur vel eftir á
 16. Gerðu háar hnélyftur meðan þú horfir á sjónvarpið: tvisvar sinnum tvær umferðir af tíu hnélyftum
 17. Finndu spennandi æfingu á Youtube (af nógu er að taka) og taktu 10 mín æfingu heima í stofu
 18. Taktu stigann þó þig langi að taka lyftuna – já allavega í dag
 19. Gerðu hnébeygjur, þú getur stutt þig við stól ef það hjálpar, tvær umferðir af tíu hnébeygjum
 20. Taktu teygjuæfingu í rúminu áður en þú ferð fram úr á morgnana


Ertu með ábendingar varðandi þessa síðu?